Víkurskóli er lítill samkennsluskóli með nemendur á aldrinum 6 til 16 ára og starfar í 10 bekkjardeildum. Skólinn tók fyrst til starfa 1. desember árið 1910. Skólinn þjónar nemendum úr þorpinu í Vík og sveitunum vestan og austan Víkur. Skólahverfið er Mýrdalshreppur.
Skólanum er skipt í þrjú námsstig þ.e. yngsta stig (1-4 bekkur), miðstig (5-7 bekkur) og elsta stig (8-10 bekkur). Í skólanum eru nemendur á bilinu 60 til 70 á hverjum tíma og starfsfólk í kringum 20.
Í skólanum er leitast við að búa nemendum hvetjandi námsumhverfi. Áhersla er lögð á samstarf kennara og fjölbreytta kennsluhætti. Víkurskóli er heilsueflandi skóli og vinnur í anda uppbyggingarstefnunnar, Uppeldi til ábyrgðar. Víkurskóli er jafnframt einn af jarðvangsskólum Kötlu Geopark. Lögð er áhersla á samvinnu og sameiginlega ábyrgð starfsmanna á verkefnum skólans. Skólinn hefur um árabil tekið þátt í fjölþjóðlegu samstarfi í gegnum Erasmus+.
Merki skólans er sett saman af litum regnbogans og Reynisdröngum. Þar er vísun í að Víkurskóli byggir á traustum grunni þar sem gjöful og fögur náttúra skapar umgjörð um skapandi stofnun sem leitast við að koma til móts við fjölbreytt litróf manneskjunnar í leik og starfi.
Gæði, gleði, gróska og gagn eru kjörorð Víkurskóla og marka þá framtíðarsýn sem við höfum mótað honum.
Hér er hægt að nálgast Skóladagatal 2022-2023 Víkurskóla.