Kvíði barna á aldrinum 6-10 ára, foreldrafræðsla

Skólaþjónustan býður foreldrum og aðstandendum barna á aldrinum 6-10 ára markvissa fræðslu um kvíða barna á þessum aldri.

Þetta er námskeiðsröð þar sem mæting er öll þriðjudagskvöld í mars kl. 19.30-21.30  (1. mars, 8. mars, 15. mars og 22. mars) í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrirlesari: Elísa Guðnadóttir og Berglind Brynjólfsdóttir sálfræðingar á Sálstofunni.

Lágmarksþátttaka er 20 heimili.

Skólaþjónustan niðurgreiðir námskeiðið svo kostnaður pr. heimili er 8.000,-.

Frestur til að skrá sig er 22. febrúar á skolamal@skolamal.is

Á námskeiðinu verður fjallað um eðli og birtingarmyndir kvíða hjá börnum, helstu orsakir og viðhaldandi þætti og gagnlegar leiðir til að takast á við kvíðavanda barna og unglinga á hjálplegan hátt.

Kvíði er eðlileg tilfinning og eins konar viðvörunarkerfi sem hjálpar börnum og unglingum að forðast hættur og vera betur í stakk búin að takast á við áskoranir í daglegu lífi. Þetta viðvörunarkerfi á þó til að bila og fara af stað í tíma og ótíma þó engin hætta sé á ferðum og getur haft áhrif á eðlilegan þroska, þátttöku í daglegu lífi og truflað nám og félagsleg samskipti. Bilað viðvörunarkerfi lagast sjaldnast af sjálfu sér og því mikilvægt að þeir sem vinna með börnum og unglingum séu færir um að bera kennsl á helstu einkenni kvíða og takast á við þau á hjálplegan hátt. Ef þig langar að öðlast meiri færni á þessu sviði eða fá hugmyndir að verkfærum sem nýtast vel til að laga bilað viðvörunarkerfi þá er þetta rétta námskeiðið fyrir þig!

Á námskeiðinu verður fjallað um eðli og birtingarmyndir kvíða hjá börnum, helstu orsakir og viðhaldandi þætti og gagnlegar leiðir til að takast á við kvíðavanda barna og unglinga á hjálplegan hátt.


Námskeiðið samanstendur af fyrirlestri, umræðum og einföldum verkefnum og byggist á kenningum og aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar og atferlismótunar. Gefin verða dæmi og sýnd kennslugögn með aðferðum sem henta ólíkum aldurshópum og henta vel til notkunar í skólakerfinu.

Á námskeiðinu er fjallað um

  • Eðli og birtingarmyndir kvíða hjá börnum og unglingum.
  • Helstu kvíðaraskanir barna og unglinga.
  • Helstu orsakir og viðhaldandi þættir eins og skipulag aðstæðna, hughreysting, neikvæðar hugsanir,öryggisráðstafanir, flótti og forðun.
  • Aðferðir til að skipuleggja umhverfið þannig að það ýti undir og styðji við kvíðalausa hegðun.
  • Aðferðir sem hjálpa börnum að ráða betur við líkamleg einkenni kvíða.
  • Æskileg viðbrögð við kvíðahegðun og notkun atferlismótandi aðferða til að takast á við kvíða með stigvaxandi hætti.

 

Ávinningur þinn

  • Lærir að þekkja helstu einkenni kvíða hjá börnum og unglingum og hvenær er viðeigandi að fá foreldra í samvinnu, vísa í nánari greiningu eða í einstaklingsmeðferð.
  • Aukin færni í að bera kennsl á hvenær kvíði er orðinn vandamál.
  • Aukin þekking á gagnlegum aðferðum til að aðstoða börn og unglinga við að takast á við kvíða og leiðir til að skipuleggja umhverfið þannig að það ýti undir kvíðalausa hegðun og hugrekki.

 

Nánar um kennara

Berglind Brynjólfsdóttir og Elísa Guðnadóttir sálfræðingar á Sálstofunni ehf.
Berglind útskrifaðist með kandídatspróf frá Kaupmannahafnarháskóla árið 2003 og úr Sérnámi í hugrænni atferlismeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2017. Frá árinu 2003 fram til ársins 2016 starfaði Berglind hjá Hjallastefnunni við greiningar barna og íhlutun og ráðgjöf til foreldra og starfsfólks leik- og grunnskóla. Frá febrúar 2016 hefur Berglind starfað á Sálstofunni sem er sálfræðiþjónusta fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra þar sem starfið felst fyrst og fremst í meðferð, ráðgjöf, námskeiðum og fræðslu vegna hegðunar- og tilfinningavanda barna.

Elísa útskrifaðist með kandídatspróf í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2008 og úr Sérnámi í hugrænni atferlismeðferð frá Endurmenntun Háskóla Íslands árið 2019. Elísa starfaði á Þjónustumiðstöð Breiðholts frá árinu 2009 til 2017 við greiningar á þroska, hegðun og líðan barna og unglinga og ráðgjöf til foreldra og starfsfólks leik- og grunnskóla. Frá febrúar 2017 hefur Elísa starfað á Sálstofunni sem er sálfræðiþjónusta fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra þar sem starfið felst fyrst og fremst í meðferð, ráðgjöf, námskeiðum og fræðslu vegna hegðunar- og tilfinningavanda barna.