Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, og Einar Freyr Elínarson, starfandi sveitarstjóri í Vík í Mýrdal, staðfestu í dag sameiginlega viljayfirlýsingu um byggingu nýs hjúkrunarheimilis sem leysa mun af hólmi þau 15 rými sem fyrir eru á hjúkrunarheimilinu Hjallatúni. Núverandi húsnæði er barn síns tíma og er langt frá því að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um hjúkrunarheimili í dag, samkvæmt viðmiðum ráðuneytisins.
Áætlað er að reisa hjúkrunarheimilið á lóð í eigu sveitarfélagsins en miðað er við að verkleg framkvæmd geti hafist árið 2023 og að taka megi heimilið í notkun árið 2026, að því gefnu að Alþingi samþykki verkefnið i fjármálaáætlun.
Kostnaður við byggingu hjúkrunarheimilisins mun skiptast þannig að 85% greiðast úr ríkissjóði en sveitarfélag Mýrdalshrepps greiðir 15%.
Stefnt er að því að hefja forathugun á verkefninu á næstu vikum í samráði við Framkvæmdasýslu ríkisins.