22. september var fyrsti fundur enskumælandi ráðs í Vík í Mýrdal. Formaður ráðsins segir að nú sé kominn vettvangur fyrir erlenda íbúa sveitarfélagsins til að koma sínum sjónarmiðum og hugmyndum áfram, en um 50 prósent íbúa á svæðinu eru af erlendu bergi brotin.
„Fyrir kosningarnar í ár var mikið rætt um að útlendingar í samfélaginu væru smá útskúfaðir úr pólitíkinni hérna í Vík. Þannig að við lögðum til að enskumælandi ráð væri stofnað fyrir okkur til þess að koma meira að samfélaginu og í dag var fyrsti fundurinn haldinn,“ segir Tomasz Chocholowicz, formaður nefndarinnar.
Tomasz segir að í nefndinni sitji fólk af mörgum ólíkum þjóðernum. Hann er sjálfur Pólverji, en í ráðinu er meðal annars fólk frá Spáni, Þýskalandi, Slóvakíu og Filippseyjum.
„Núna líður okkur ekki eins og við séum útskúfuð úr samfélaginu okkar. Það mætti segja að þessi nefnd sé brú á milli erlendra og innlendra íbúa í Vík,“ segir Tomasz.
„Ég er í skýjunum með þennan fund,“ segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps og starfsmaður ráðsins. „Það sem enskumælandi ráðið gerir, það gefur þessum stóra hóp íbúa í sveitarfélaginu, sem eru erlendir íbúar, vettvang til þess að taka þátt í stjórnsýslunni og móta samfélagið. Mér fannst mikilvægt að þessi hópur fengi rödd og fengi meira um hlutina að segja, sem er mjög eðlileg krafa og hollt fyrir okkur ef við ætlum að hafa sjálfbært samfélag hérna á Vík. Þá þýðir ekki að einn hópur sé hálf afskiptur,“ segir Einar.
Hann segir að tillögur um nýja líkamsræktarstöð og möguleikann að fá erlendan lækni á svæðið hafi verið rætt á fundinum.
„Þetta er ótrúlega flottur vettvangur fyrir hugmyndir sem hjálpa samfélaginu okkar. Ég er gríðarlega ánægður með fundinn í morgun og ég held að það hafi verið almenn ánægja hjá öllum sem sátu þennan fund,“ segir Einar.
Grein frá Fréttablaðinu.
www.frettabladid.is/frettir/enskumaelandi-rad-hefur-storf-i-vik/