Kvenfélagið Ljósbrá færði Ungmennafélaginu Kötlu í Vík í Mýrdal höfðinglega gjöf á mánudaginn. Það voru tuttugu badmintonspaðar sem eru ætlaðir fyrir yngstu iðkendurna, en barnaspaðarnir eru minni og styttri en fullorðinsspaðarnir.
Að sögn Evu Daggar Þorsteinsdóttur, formanns Umf. Kötlu, mun þessi rausnarlega gjöf án efa nýtast vel.
„Þetta mun hjálpa börnunum að ná betra valdi á spöðunum og þar með efla sjálfstraust þeirra gagnvart íþróttagreininni. Badminton er mikið stundað af fullorðnum í Vík en þar eru æfingar þrjú kvöld í viku. Því má segja að nú sé verið að efla yngstu kynslóðina í að halda þessum mikla badmintonáhuga við,“ segir Eva Dögg.