Embætti sýslumanns á Suðurlandi er stjórnsýslu- og þjónustustofnun sem reist er á gömlum grunni og annast fjölþætt viðfangsefni framkvæmdarvalds ríkisins í héraði. Áherslur vinnustaðarins byggja á góðri og faglegri þjónustu, skilvirku verklagi og öflugri liðsheild.
Laus er til umsóknar starf skrifstofumanns við embætti sýslumannsins á Suðurlandi á starfsstöð þess í Vík í Mýrdal.
Í Vík er ein fjögurra starfsstöðva embættisins þar sem fram fer fram öll almenn afgreiðsla erinda og móttaka gagna, unnið er sérverkefni sem lýtur að bókhaldi sendiráða, þar er aðalgjaldkeri embættisins staðsettur auk þess sem í Vík er aðsetur Lögbirtingablaðs.
Um er að ræða starf í þjónustuveri embættisins auk aðstoðar við móttöku, yfirlestur og umbrot við útgáfu Lögbirtingablaðs. Helstu verkefni í þjónustuveri eru afgreiðsla almennra fyrirspurna og upplýsingagjöf í síma og eftir rafrænum leiðum. Ennfremur er tekið á móti umsóknum um ökuskírteini, vegabréf, dvalarleyfi o.fl., afgreidd ýmis vottorð og móttekin gögn t.d. til þinglýsingar. Auk þess sinna starfsmenn í þjónustuveri gjaldkerastörfum og annast önnur tilfallandi störf.
Embætti sýslumanns er framsækinn vinnustaður sem skipaður er hæfu starfsfólki og veitir metnaðarfulla þjónustu. Við leitum að kraftmiklum einstaklingi sem er reiðubúinn að tileinka sér gildi og áherslur vinnustaðarins.
Laun samkvæmt gildandi kjarasamningi sem fjármála- og efnahagsráðherra og Sameyki hafa gert.
Vinnutími er alla virka daga frá kl. 8:00-15:12. Starfið heyrir undir sýslumann.
Umsókn um starfið þarf að fylgja starfsferilskrá ásamt upplýsingum um meðmælendur, kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir hæfni viðkomandi til starfans auk annarra atriða sem máli kunna að skipta. Sótt er um starfið á Starfatorgi.
Við ráðningu verður tekið mið af jafnréttisáætlun embættisins. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.
Athygli er vakin á því, að umsóknir munu gilda í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.
Starfshlutfall er 100%
Umsóknarfrestur er til og með 19.04.2022
Kristín Þórðardóttir, sýslumaður - kristin.thordardottir@syslumenn.is - 4582800