Veist þú hvað gerist 1. janúar 2023?

Síðastliðið sumar voru sett lög um úrgangsmeðhöndlun sem beinast að því að koma á hringrásarhagkerfi í meðhöndlun úrgangs. Tilgangur laganna er m.a. að draga umtalsvert úr þeim úrgangi sem fer til urðunar eða brennslu og að gjöld verði sem næst raunkostnaði. Þessi lög munu taka gildi 1. Janúar 2023. Undirbúningur er hafinn en verður án efa eitt af stærri verkefnum nýrra sveitarstjórna strax að loknum kosningum. Lögin gera ráð fyrir mun meiri flokkun á úrgangi og setur m.a. þröngan ramma um það hvað á að flokka við heimili og hverju skal taka við á grenndarstöðvum. Gert er ráð fyrir að plast, pappi, lífrænn úrgangur og óflokkað sorp verði tekið frá heimilum en á grenndarstöðvum verið tekið á móti, textíl, áli, gleri og skilaskildum umbúðum.

Íbúar og lögðaðilar munu þurfa að borga í hlutfalli við það sem þeir láta frá sér af óflokkuðum úrgangi.

Lögin hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin og munu þau þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi. Með lagabreytingunum er gerð  krafa um að fast gjald, sem flest sveitarfélög leggja á í dag, takmarkist við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það.

Sveitarfélögin í landinu eru að undirbúa sig undir þessa stóru breytingu. Samtaka um hringrásarhagkerfi er þrískipt átak sem sambandið býður upp á í samstarfi við umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið og er ætlað að aðstoða við innleiðingu hringrásarhagkerfis og mæta auknum kröfum til sveitarfélaga.

Hvert sveitarfélag hefur sína sérstöðu sem þarf að reyna að vinna úr, því er þetta alls ekki einfalt verkefni.

Markvisst hefur verið unnið að því síðastliðin fjögur ár að draga úr því magni úrgangs sem fer til urðunar  í M'yrdalshreppi. Á árinu 2021 voru flutt til endurvinnslu 67 tonn af plasti og pappa og 47 tonn af lífrænum úrgangi. Við viljum alltaf gera betur því vil ég skora á íbúa og ekki síður lögaðila að taka flokkunina ennþá fastari tökum og byrja strax að flokka eins og vindurinn, betra að vera komin í góða þjálfun þegar lögin taka gildi 1. janúar 2023.

Sveitarstjóri