Skólahreystibrautin í Vík var formlega opnuð við hátíðlega athöfn í dag. Brautin er sú fyrsta sinnar tegundar á Suðurlandi og markar áframhald á uppbyggingu fjölbreyttari möguleika til heilsueflingar og afþreyingar.
Einar Freyr Elínarson sveitarstjóri ávarpaði viðstadda og þakkaði styrktaraðilum sem áttu hlut í að verkefnið varð að veruleika. Víkurskóli hélt utan um söfnun styrkja sem bárust jafnt frá fyrirtækjum sem og einstaklingum. Mýrdalshreppur lagði svo til það sem eftir stóð og sá um frágang og gerð girðingar við brautina.
Björn Þór Ólafsson oddviti Mýrdalshrepps og Björn Vignir Ingason formaður nemendaráðs Víkurskóla klipptu svo á borða og vígðu þannig formlega Skólahreystibrautina.
Andrés Guðmundsson stofnandi Skólahreysti kom til Víkur við þetta tilefni og kynnti brautina fyrir viðstöddum. Hann lýsti jafnframt frumraun nemenda Víkurskóla sem fóru með glæsibrag í gegnum brautina.
Öllum þeim sem komu að verkefninu er færðar þakkir fyrir. Ungmennum og öðrum íbúum sem munu njóta góðs af hreystibrautinni eru færðar hamingjuóskir með von um að hún nýtist íbúum vel til áframhaldandi heilsueflingar.
Einar Freyr, sveitarstjóri